Um Skokkið

Í byrjun júlí fer fram óbyggðahlaup eftir endilöngum Þorvaldsdal í Eyjafirði. Skokk þetta var fyrst haldið árið 1994 og hefur farið fram árlega síðan. Þorvaldsdalur er opinn í báða enda, opnast suður í Hörgárdal og norður á Árskógsströnd.

Skokkið hefst við Fornhaga í Hörgárdal (þjóðvegur 815), en Fornhagi er 90 m yfir sjávarmáli, og endamarkið er við Árskógsskóla, sem er um 60 m yfir sjávarmáli. Vegalengdin er um 25 kílómetrar. Allbratt er fyrsta spölinn upp frá Fornhaga og dalbotninn nær 500 m hæð eftir um 5 km, í svonefndri Kytru, en úr því hallar undan með þeim frávikum sem landslagið býður upp á. Skokkarar fylgja sennilega helst fjárgötum, en mega fara hvaða leið sem þeim sýnist þægilegust. Leiðin er ómerkt. Farið er um móa, mýrlendi og norðlenskt hraun (framhlaup). Menn mega búast við því að blotna í fætur við að fara yfir mýrar og læki. Þorvaldsdalsskokkið hefst við réttina sunnanvið Fornhaga og er hlaupið norður yfir brúna á ánni (Ytri-Tunguá) og síðan upp með gilinu og er áin höfð á vinstri hönd. Um 300 m ofan vegar er fjallsgirðing og er þar opið hlið sem menn fara gegnum. Síðan er fjárgötum og dalbotninum fylgt og skal gæta þess að hafa ána ætíð á vinstri hönd og fjallshlíðina á hægri hönd. Fyrst rennur áin á móti manni, en á vatnaskilum (í Kytrunni) hverfur hún en rennur síðan með hlaupastefnunni. Menn skulu gæta þess sérlega að fara ekki vestur yfir dalbotninn á vatnaskilunum sem eru í námunda við fyrstu drykkjarstöð, en þetta er helsti möguleikinn á því að villast. Fjórar drykkjarstöðvar eru á leiðinni og þar er starfsfólk hlaupsins til taks. Hrafnagilsá, eina verulega þveráin sem er síðla á hlaupaleiðinni, var nýlega brúuð með göngubrú en áður var jeppi þar til taks til að ferja menn yfir. Nú hlaupa menn hins vegar yfir á brúnni. Þaðan er skokkað eftir jeppavegi (um 5 km) að endamarki við Ársskógsskóla.

Skokkið hefst kl. 12:00 við Fornhaga í Hörgárdal, en menn mæta við Árskógsskóla kl. 11:00 og geta skilið ökutæki og búnað eftir þar en þátttakendum er ekið frá Árskógsskóla að rásmarkinu við Fornhaga.

Hér má sjá mögulega hlaupaleið eftir Þorvaldsdalnum.

Þorvaldsdalsskokkið er ætlað öllum, bæði konum og körlum, sem telja sig komast þessa leið hlaupandi eða skokkandi á innan við fjórum klukkustundum. Tímatöku verður hætt klukkan 17:00. Keppt er í aldursflokkum 16-39 ára, 40-49 ára, 50-59 ára, 60-69 ára og 70 ára og eldri. Þrír fyrstu karlar og konur hljóta verðlaun sem gefin eru af styrktaraðilum hlaupsins. Árangur allra þátttakenda verður síðan birtur hér á síðunni og á hlaup.is.

Forskráning er á hlaup.is en einnig er hægt að skrá þátttöku að morgni hlaupdags, ef þátttökutakmörkunum hefur ekki verið náð. Þeir sem skrá sig með a.m.k. viku fyrirvara fá innifalið í skráningargjaldinu gjöf frá aðal styrktaraðila hlaupsins.

Sá sem hraðast hefur hlaupið var 1 tíma, 47 mínútur og 12 sekúndur og elsti þátttakandinn hingað til var 79 ára. Götuskokkarar, göngumenn og aðrir eru hvattir til að fara á sínum hraða um þennan fallega dal. Þetta skokk er gjörólíkt öllum götuhlaupunum sem nú eru í boði. Framkvæmdaaðilar Þorvaldsdalsskokksins eru: UMSE, Ungmennafélagið Reynir, Árskógsströnd og Ungmennafélagið Smárinn, Hörgárbyggð.

Upplýsingar veitir Starri Heiðmarsson (663-2650).

Frekari upplýsingar með tölvupósti gefur hlaupsstjóri (thorvaldsdalsskokk@umse.is) eða skrifstofa UMSE.

Hlaupaleiðin

Drykkjarstöðvar eru við 5 km, 12 km, 17 km og 21 km.

Þversnið af hæðarbreytingu í hlaupinu

.