Útlitið gott!
Dagsetning birtingar: Jul 01, 2011 7:6:15 PM
Stuttu áður en lokað er fyrir forskráningu í Þorvaldsdalsskokk ársins hafa 37 hlauparar boðað komu sína. Það er ágætis þátttaka ekki síst sé tekið tillit til þess veðurfars sem við norðlendingar höfum búið við það sem af er sumri. Lengi var veðurspáin fyrir morgundaginn leiðinleg en í þessum skrifuðu orðum lítur út fyrir að það verði ákjósanlegt hlaupaveður. Hins vegar má reikna með óvenju miklum snjó á Þorvaldsdalnum vegna kuldans undanfarið en það ætti ekki að vera til stórra vandræða.
Að hlaupi loknu býðst þátttakendum hressing í marki, bananar og safi sem Nettó styrkja okkur með en Árni Arnsteinsson, velunnari hlaupsins og stórbóndi í Stóra-Dunhaga styrkti hlaupið með dilkakjöti sem Ingunn Aradóttir á Syðri-Reistará mun sjóða kjötsúpu úr.
Hlauparar geta svo skolað af sér ummerki Þorvaldsdalssins (leir, mold og mýrareðju) í Jónasarlaug á Þelamörk um leið og þeir láta þreytuna líða úr líkamanum. Þó eru vinsamleg tilmæli frá starfsfólki á Þelamörk að hlauparar nýti sér útiklefana!