Erfiðar aðstæður á áætluðum hlaupadegi
Dagsetning birtingar: Jul 05, 2014 4:7:27 PM
Vegna mikillar úrkomu á Norðurlandi síðasta sólarhring auk þess sem vindur var allhvass af norðri var ákveðið að fresta Þorvaldsdalsskokkinu í dag, laugardaginn 5. júlí og þreyta hlaupið á morgun á sama tíma. Það hefur verið hryssingslegt veður hér norðanlands undanfarna daga og síðastliðna nótt snjóaði víða í fjöll auk þess sem úrkomusvæði gekk yfir svæðið í morgunsárið sem olli því að allir lækir á dalnum voru miklir. Meðfylgjandi mynd var tekin til norðurs í dalkjaft Þorvaldsdalssins séð frá upphafi hlaupsins við Ytri-Tunguá:
Ytri-Tunguá, sem hlaupið er meðfram þartil að vatnaskilum kemur, var einnig í góðum vexti.
Í hlaupinu á morgun sunnudag vitum við að aðstæður verða erfiðar og hvetjum við keppendur til að sýna aðgæslu en veðurútlitið er mun skárra en var í dag og vonandi að sjatnað hafi í ám og lækjum.
Allar upplýsingar um hlaupið veitir Starri í síma: 6632650