Hlaup ársins - upplýsingar til hlaupara

Dagsetning birtingar: Jul 02, 2021 8:41:22 AM

Ágæti þátttakandi í Þorvaldsdalsskokkinu!

Velkomin til leiks í 28. Þorvaldsdalsskokkinu þann 3. júlí 2021. Hér eru helstu atriði sem vert er að hafa í huga í undirbúningi fyrir sjálft hlaupið. Við bendum líka á að ýmsar upplýsingar um hlaupið og staðhætti má finna á heimasíðu hlaupsins, thorvaldsdalur.umse.is.

Við gerum okkar besta til að tryggja öryggi keppenda en vekjum athygli á að hlaupið er um eyðidal þar sem fjarskiptasamband er ekki alltaf gott. Einnig vekjum við athygli keppenda á að kynna sér vel veðurspá á hlaupdag til að meta klæðaþörf. Sé þoka eða mjög lágskýjað getur komið til þess að fresta verður hlaupinu. Slík ákvörðun yrði tekin með tiltölulega stuttum fyrirvara en hingað til hefur hlaupinu einu sinni verið frestað um einn dag.

Hlaupið hefst við brúna yfir Ytri-Tunguá milli bæjanna Dagverðartungu og Fornhaga í Hörgárdal. Við rásmarkið verða staðsett salernisaðstaða. Svæðið er þröngt og því biðjum við þá sem koma að rásmarki á eigin bílum að leggja þeim við réttina sem er u.þ.b. 150 m sunnan við rásmarkið, niður með Ytri-Tunguá. Þeir sem eru skráðir í rútuferð frá markinu þurfa að vera mættir fyrir 11 að Árskógsskóla en þaðan fara rútur með keppendur uppúr 11. Hlaupið er síðan ræst kl. 12:00.

Við hvetjum ykkur til að kynna ykkur Þorvaldsdalinn, t.d. með því að skoða heimasíðu hlaupsins en þar eru tenglar á kort sem sýna leiðina. Um óbyggðahlaup er að ræða og engin ákveðin leið sem þarf að hlaupa en gæta þarf þess að hafa fjallshlíðina á hægri hönd og ána á vinstri hönd alla leið nema þegar hlaupið er á vatnaskilum. Upp frá Fornhaga er hlaupið til norðvesturs en fljótlega sveigir dalurinn til norðurs. Fyrstu rúmlega 6 km er hlaupið upp í móti og er um rúmlega 400 m hækkun að ræða. Fyrsta drykkjarstöð er eftir u.þ.b. 5 km, þ.e. áður en hæsta hjalla er náð. Önnur drykkjarstöð er eftir tæpa 11 km og er hún staðsett rétt áður en komið er að stóru framhlaupi (hrauni skv. norðlenskri málvenju) er nefnist Hesthraun. Þar er hlaupurum beint á leið sem liggur neðan við framhlaupið meðfram ánni. U.þ.b. 5 km síðar koma hlauparar að jeppaslóða sem smá saman þroskast í grófan malarveg. Veginum er gott að fylgja nema hvað við stærstu þverána, Hrafnagilsá, er gott að hlaupa yfir á göngubrú sem staðsett er ofan við vaðið. Til að komast að brúnni borgar sig að sveigja til hægri nokkru áður en komið er að vaðinu (annars þarf að vaða alldjúpt síki) og verður sú leið merkt með flaggi. Norðan við göngubrúna yfir Hrafnagilsá er þriðja drykkjarstöðin og eru þá rúmlega 6 km í mark. Síðasta drykkjarstöðin er síðan við afréttargirðinguna og eru þá einungis 2,5 km í mark.

Þrátt fyrir að oft megi fylgja kindagötum á Þorvaldsdalnum þá eru aðstæður oft slíkar að enga götu er að sjá. Við hvetjum keppendur til að fara með gát og vonlaust má telja að hægt sé að hlaupa dalinn án þess að vaða mýrar og læki.

Á fyrstu tveimur drykkjarstöðvunum, þ.e. sem eru ekki í vegasambandi, eru staðsettir björgunarsveitarmenn auk starfsmanna hlaupsins. Þar að auki verður einn björgunarsveitarmaður staðsettur u.þ.b. á vatnaskilum en sá aðili verður hreyfanlegur og því ekki víst að hann verði allan tíma á sama stað. Björgunarsveitin mun einnig staðsetja bíl og mann u.þ.b. þar sem jeppaslóðinn endar.

Í vanda eða við slys þá biðjum við ykkur að hafa samband hið fyrsta við starfsmenn hlaupsins. Ef það kemur þoka og þið villist (séuð þið á annað borð komin norður fyrir vatnaskil þannig að þið getið treyst því að áin á vinstri hönd sé Kytruá sem síðar verður Þorvaldsdalsá ætti ekki að vera mikil hætta á að villast) er afar mikilvægt að byrja strax að lækka sig. Fylgið vatnsföllum ef þið komið að slíku og gangið niður. Fari svo að þið skilið ykkur aftur niður að rásmarki er mikilvægt að láta starfsmenn hlaupsins vita af ykkur svo ekki verði kölluð út leit.

Tímamörk á hlaupinu eru 5 klst!