Þorvaldsdalsskokkið 2019

Dagsetning birtingar: Jul 07, 2019 4:3:51 PM

Það voru 96 hlauparar og skokkarar sem lögðu af stað frá rásmarki í Hörgárdalnum laugardaginn 6. júlí. Líkt og undanfarin ár hófst hlaupið kl. 12 á hádegi. Um metfjölda er að ræða og var góður hluti þátttakenda að uppfylla norðurhluta Landvætta. Aðstæður tl hlaupa voru góðar, hæg norðanátt og nánast heiðskírt. Uppi á Þorvaldsdalnum voru aðstæður góðar, sökum tíðarfars var lítið um snjó og tiltölulega þurrt. Drykkjarstöðvar voru mannaðar þaulvönum mönnum sem flestir hafa sinnt störfum við hlaupið svo árum og jafnvel áratugum skipti.

Hér er hlaupið nýhafið, hlaupararnir komnir yfir brúna á Ytri-Tunguá og stefna á Þorvaldsdalinn.

"Öll er sú ganga upp í mót" Við upphaf brekkunnar upp í Þorvaldsdal. Strax hefur hópurinn dregist í sundur og víst að margir eiga eftir að njóta þrjósku sinnar og viljastyrks til að klára brekkuna sem lýkur ekki alveg fyrr en að rúmum 6 kílómetrum liðnum.

Fyrstur í mark, líkt og alltaf þegar hann hefur tekið þátt, var Þorbergur Ingi Jónsson en hann á besta tíma Þorvaldsdalsskokksins, 1:47:12 sem hann náði 2012. Að þessu sinni var hann ríflega mínútu frá metinu en sigurtíminn 2019 var 1:48:20.

Annar í hlaupinu varð Sveinn Margeirsson, hér til vinstri og Sigurður Hrafn Kiernan, hér til hægri, varð í þriðja sæti. Sveinn náði afbragðs tíma, 1:58:06 og er hann fjórði keppandinn til að komast undir 2 tíma auk þess sem tími hans er besti tími í flokki 40-49 ára frá upphafi.

Í kvennaflokki sigraði Rannveig Oddsdóttir (fyrir miðju) á tímanum 2:29:31. Önnur kvenna varð Ingibjörg Gísladóttir (til vinstri) og í þriðja sæti Rakel Káradóttir (til hægri).

Þátttaka í kvennaflokki var afar góð og er þetta í fyrsta skipti sem fleiri konur taka þátt en karlar enn alls luku 57 konur keppni.