Tilurð skokksins

Hugmyndin að Þorvaldsdalsskokkinu kviknaði hjá Bjarna E. Guðleifssyni eftir að hann varð vitni að skosku fjallahlaupi uppá hæsta fjall Skotlands, Ben Nevis. Eftirfarandi er frásögn Bjarna af því en þetta er tekið úr væntanlegri bók Bjarna, „Náttúruskoðarinn IV“ en þegar hefur bókaútgáfan Hólar gefið út tvær bækur eftir Bjarna í þessum flokki: „Náttúruskoðarinn I, Dýraríkið“ og „Náttúruskoðarinn II, Jurtaríkið“.

"Haustið 1993 skrapp ég til Skotlands, átti erindi á ráðstefnu í litlum háskólabæ í Mið-Skotlandi sem nefnist St. Andrews en þar er vagga golfíþróttarinnar. Þetta var fyrsta heimsókn mín til Skotlands, áður hafði ég einungis millilent þar á flugvöllum. Kona mín og 13 ára dóttir fóru með og áttum við þarna nokkra frídaga áður en skylduverkin kölluðu. Við flugum til Glasgow og gistum þar eina nótt á ágætu hóteli og gátum litið aðeins í búðir. Við höfðum oft heyrt minnst á verslunarferðir Íslendinga til Glasgow enda kom í ljós að verslunarfólkið kannaðist vel við kaupglaða Íslendinga. Á hótelinu sem við gistum í voru allar leiðbeiningar á mikilvægustu þjóðtungunum, ensku, þýsku, frönsku og spönsku en það undraði okkur að leiðbeiningar og árnaðaróskir stóðu einnig á íslensku, líklega tákn um mikilvægi landans sem viðskiptavinar. Við höfðum reyndar séð dæmigerða íslenska viðskiptavini í flugvélinni áleiðis til Glasgow en þeir báru glaðbeittir stórar en léttar ferðatöskurnar af flugvellinum en í ferðatöskunum var víst lítið annað en aðrar minni töskur sem átti að fylla af varningi fyrir heimferðina. Hafa sporin heim því áreiðanlega verið nokkru þyngri, einnig vegna tilhugsunarinnar um væntanlegan Visareikning. Við versluðum svolítið í Glasgow, bárumst með krómuðum rúllustigunum upp og niður verslunahallirnar, urðum hálf ringluð af að horfa í alla speglaveggina og slógum óspart um okkur með Visakortinu. Mér varð ósjálfrátt hugsað til þess hve ólíkt við Egill Skallagrímsson hefðum hafst að. Hann fór til Bretlandseyja fyrir 1000 árum og flutti þar Höfuðlausn og bjargaði þar með lífi sínu. Höfuðlausn var hans vísa. Mín Visa er hina vegar plastkort sem síður en svo þyrmir lífi mínu.

Að loknum einum degi við verslanagötuna fórum við með lest norður í skosku hálöndin og nutum í nokkra daga fallegrar fjallanáttúru í dásamlegu veðri. Markmið okkar var að ganga á hæsta fjall Bretlandseyja, Ben Nevis, en það er á hæð við norðlensku fjöllin sem ég þekki hvað best, 1.344 metra yfir sjávarmáli. Við gistum hjá viðkunnanlegri konu sem rak „Bed and Breakfast“ á heimili sínu í Fort William en þarna gistu einnig tveir rennilegir menn sem gætu hafa verið um fertugt. Þegar ég tók þá tali kom í ljós að þennan dag, göngudaginn okkar, var svokallað „Ben Nevis Race“, kapphlaup um að verða fyrstur upp á toppinn og niður aftur. Þegar við komum að fjallinu daginn eftir sýndist það fremur sakleysislegt og alls ekki bratt þeim megin sem á það var gengið. Kom í ljós göngubraut alla leið upp á topp þar sem grjóti hafði verið hagrætt, möl borin á verstu staðina og lækir brúaðir. Um tíma fór ég jafnvel að óttast að brautin væri búin rúllustiga líkt og verslanahallirnar í Glasgow en sá ótti reyndist ástæðulaus.

Það kom í ljós að þetta var enginn rólegheita dagur á Ben Nevis því margir keppendur voru í hlaupinu. Þeir voru einmitt að hlaupa þegar við gengum upp stíginn. Máttu þeir velja sér hvaða leið sem þeir vildu en flestir hlupu þó eftir göngustígnum en þeir kappsömustu og kunnugustu styttu sér leið gegnum skógarþykknið en þegar ofar dró var skógurinn horfinn. Það var gaman að sjá þessa keppendur hamast upp og niður hlíðina á fullri ferð og við vikum úr vegi þeirra. Ósjálfrátt bar ég þetta fjallhressa fólk saman við Visafólkið í rúllustigunum í Glasgow. Tæplega 500 kappar þreyttu hlaup upp á topp og niður aftur og voru þeir fyrstu einungis um einn og hálfan tíma. Það var stórkostlegt að sjá garpana puða upp og koma svo í hendingskasti niður hlíðina en ekki komust allir ósárir úr þeim dansi. Við heyrðum í þyrlu sem sótti slasaða. Slík fjallahlaup eru víst nokkuð algeng í Bretlandi.

Það var talsverð ganga upp á tindinn og vorum við um 5 tíma í ferðinni báðar leiðir og nutum ógleymanlegs útsýnis af tindinum í blíðunni. Skotland lá fyrir fótum okkar. Skemmst er frá því að segja að öll eyðsla í verslunarhverfum Glasgowborgar hvarf úr huga mér við að líta fegurðina af tindi Ben Nevis. Var af því tilefni sett saman eftirfarandi limra:

Your Visacard will never stop

if your vife is in Glasgow to shop.

But you sure will survive

should you once in your life

see the beauty from Ben Nevis top.

Í flugvélinni heim tók hún eftirfarandi breytingum:

Með Visa ég ráfa´ um í verslanahöllum

og veit ekki fyrr en ég skulda þar öllum.

Ég feginn varð þá

er fékk ég að sjá

fegurð alls Skotlands af Ben Nevis fjöllum.

Þegar ég kom heim eftir þessa lífsreynslu velti ég því fyrir mér hvort ekki væri hægt að hafa svona hlaup á Íslandi, hafði einungis heyrt um Esjuhlaup. Kannaði ég ýmsa möguleika, en sá fljótt að íslensku fjöllin eru of hættuleg til að beina kappsfullu fólki á til keppni. Þau eru flest of brött, þar er víða stórgrýtt og skriðuhætt, og að standa fyrir slíku hlaupi fannst mér ábyrgðarleysi. Ég féll því frá þeirri hugmynd og fann ágæta óbyggðaleið í gegnum Þorvaldsdal sem er opinn í báða enda og liggur á milli Hörgárdals og Árskógsstrandar og er um 26 kílómetra hlaup, eins konar smáútgáfa af Laugavegshlaupinu sem margir skokka núna. Byrjað er í um 50 metra hæð og farið upp í 500 metra þar sem hæst er og á leiðinni er farið yfir tvö stórgrýtt berghlaup, Hestahraun og Hrafnagilshraun. Slík óbyggðahlaup eru heldur ekki hættulaus, en auk líkamsmeiðsla er mesta hættan fólgin í því að villast, einkum ef þoka er hlaupadaginn. Þorvaldsdalsskokkið er haldið árlega fyrsta laugardag í júlí og hafa þátttakendur verið á milli 20 og 50 talsins á öllum aldri, sá elsti 79 ára. Sumir hlaupa, sumir skokka og aðrir ganga og njóta umhverfisins á leiðinni. Sá sem hraðast hefur hlaupið var rúma 2 tíma, en þeir sem ganga eru á milli 5 og 6 tíma á leiðinni."