Þorvaldsdalsskokkið fór fram í dag, 1. júlí, við þokkalegar aðstæður. Vindur var norðanstæður og allnokkur þoka á Þorvaldsdalnum sjálfum en hlauparar létu það lítið á sig fá og náðist afbragðs árangur. Sigur í karlaflokki hlaut Egill Bjarni Gíslason en hann bætti sig um tæpar 22 mínútur frá því í fyrra. Þess má einnig geta að Egill Bjarni er einungis 16 ára og ljóst að um efnilegan óbyggðahlaupara er að ræða. Rúmri mínútu á eftir Agli kom Gísli Einar Árnason, faðir hans, og Ingólfur Gíslason var þriðji í karlaflokki. Tími Egils Bjarna var 2:05:52, Gísli Einar var á tímanum 2:09:09 og tími Ingólfs var 2:09:18. Sigurvegarar í karlaflokki, frá vinstri: Gísli Einar Árnason, Egill Bjarni Gíslason og Ingólfur Gíslason. Fyrst kvenna í mark kom Anna Berglind Pálmadóttir á tímanum 2:40:30, önnur var Inga Fanney Sigurðardóttir á tímanum 3:02:11 og þriðja varð svo Rakel Steingrímsdóttir á tímanum 3:08:08. |
Untitled >